Öflugur hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna hefur gengið frá kaupum á yfir 90% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum hf. Hluthafar í félaginu eru rúmlega 20 og fer enginn hluthafi með yfir 10% eignarhlut. Meðal hluthafa eru Ursus Maritimus Investors sem er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, Kaldbakur ehf., Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA svf., Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Kjálkanes ehf. og Salvus ehf. í eigu Sigþórs Jónssonar framkvæmdastjóra ÍV. Stefna nýrra eigenda er að styðja félagið til áframhaldandi vaxtar og er það trú þeirra að Íslensk verðbréf muni eflast á íslenskum fjármálamarkaði á næstu árum.
„Undanfarin misseri hafa verið viðburðarrík hjá Íslenskum verðbréfum. Aukinn kraftur er nú í starfseminni og nýir starfsmenn hafa komið til liðs við félagið. Á næstu mánuðum munum við auk þess kynna nýjungar í þjónustu.” segir Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður ÍV.
Að sögn Sigþórs Jónssonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, felst mikil viðurkenning fyrir félagið og starfsmenn í nýju eignarhaldi. „Nýtt eignarhald gefur félaginu ýmis tækifæri og gerir því kleift að sækja kröftuglega fram á næstu misserum. Íslensk verðbréf munu taka virkan þátt í íslensku atvinnulífi með víðtækari þjónustu við viðskiptavini félagsins. Styrkur ÍV felst meðal annars í langri og góðri rekstrarsögu ásamt því góða orðspori og sérstöðu sem félagið hefur skapað sér á löngu tímabili.“
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem var stofnað árið 1987 og hvílir því á traustum grunni. Félagið hefur verið aðili að Kauphöll Íslands frá árinu 1995 og hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki. Félagið veitir alhliða þjónustu á sviði eignastýringar og markaðsviðskipta auk reksturs framtakssjóða og sérhæfðra fjárfestinga. Dótturfélag Íslenskra verðbréfa er ÍV sjóðir hf., og á félagið einnig 45,5% eignarhlut í Tplús ehf. Starfsmenn eru 19 og búa þeir yfir mikilli reynslu og þekkingu á verðbréfamarkaði samfara fjölbreyttri menntun. Eignir í stýringu hjá Íslenskum verðbréfum eru um 111 milljarðar kr. og alls eru rúmlega 2 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í eignastýringu og vörslu hjá félaginu.